Rafrænt formannskjör Samfylkingarinnar

Um mánaðarmótin maí – júní fór fram rafræn kosning formanns Samfylkingarinnar. Að þessu sinni voru fjórir í kjöri og óhefðbundinni aðferð var beitt í þessu kjöri. Í stað þess að velja einn mann á lista gat kjósandinn valið 1 eða fleiri frambjóðendur og raðað þeim í þeirri röð sem hann taldi besta. Aðferð sem svipar til þessara var einnig notuð í kjöri til stjórnlagaþings en henni er beitt víðar t.d. á Bretlandseyjum, á Nýja Sjálandi og í Ástralíu og heitir á ensku ” single transferable vote” – Eitt af markmiðum með beitingu þessarar aðferðar er að sá sem á endanum er valinn hljóti hreinan meirihluta atkvæða. Annað sem vinnst með þessu er að í útreikningi geta atkvæði færst á milli frambjóðenda í takt við það hvernig kjósandinn velur á kjörseðlinum. Meira um STV aðferðina hér>>

Íslykill nýttur til innskráningar

Í þessari kosningu var STV ekki það eina sem var óvenjulegt. Í fyrsta skipti í svo umfangsmikilli kosningu hjá Outcome könnunum var Íslykli beitt við innskráningu. Rúmlega 17.000 kjörlyklar voru gefnir út félagsmenn í Samfylkingunni og tengdir við Íslykilsinnskráningu fyrir viðkomandi kjósanda. Þannig fór öll innskráning fram í gegnum Íslykilsviðmót Þjóðskrár og kjósandinn færður þaðan inn í kosningakerfið um dulkóðað samband. Almennt má segja að framkvæmdin öll hafi gengið vel fyrir sig. Bæði áttuðu kjósendur sig vel á kjörseðlinum og flestir völdu fleiri en einn frambjóðanda. Eins gekk kjósendum vel að greiða atkvæði með Íslykli. Mjög lágt hlutfall kjósenda nýtti leyfi til að kjósa á pappír.  Vinna við framkvæmd kosninganna var því mun minni en ella og fá mál komu upp tengd kjörseðlum eða aðgengi að kjörgögnum. 

Margvíslegur ávinningur

Í stað þess að senda yfir 17000 aðilum bréf í pósti fór Samfylkingin í kynningarherferð í fjölmiðlum og gaf út mjög skýrar leiðbeiningar um hvernig kjósendur skyldu bera sig að við atkvæðagreiðslu. Fullyrða má að heildarkostnaður við framkvæmdina hafi verið miklu mun minni en ella þar sem ekki var sendur bréfpóstur. Umhverfisáhrif eru einnig miklu mun minni því mörg kíló af pappír spöruðust, ferðir á kjörstað og mögulegar sendingar kjörgagna spöruðust. Loks fór mest öll úrvinnsluvinna fram í tölvu og mikill tími sparaðist þar.

Framkvæmdin heppnaðist vel og það má m.a. þakka undirbúningi og hæfum samstarfsaðilum. Fjöldinn sem tók þátt í kjöri formanns voru um 3900 manns sem þykir gott ef horft er almennt til þátttöku í formannskjöri stjórnmálaflokka. Flott framtak sem verður vonandi til eftirbreytni.

Leave a Reply

Your email address will not be published.