Hvenær ræður meirihlutinn?

Flókin niðurstaða í atkvæðagreiðslu

Í nóvember greiddu lögreglumenn atkvæði um kjarasamning við ríkið. Áhugi á atkvæðagreiðslunni var mikill enda mjög skiptar skoðanir um samninginn í röðum lögreglumanna. Um var að ræða rafræna atkvæðagreiðslu og þátttakan sló fyrri met en 93% þeirra sem voru á kjörskrá tóku þátt og það telst met ef horft er til þess hve stór hópurinn er. Framkvæmd atkvæðagreiðslunnar gekk vel og kjörstjórn var vel vakandi yfir framgangi atkvæðagreiðslunnar sem fór í alla staði vel fram.

Niðurstaðan var hinsvegar snúin og ekki sérstaklega til þess fallin að efla samstöðu í þessum annars góða hópi. Í stuttu máli var það þannig að fleiri sögðu nei en já við samningnum. Samningurinn var hinsvegar samþykktur því Já atkvæðin og auðir seðlar mynduðu meira en helming allra atkvæða. Þetta kann mörgum að finnast snúið en tilfellið er að eigi að fella tillögu eða í þessu tilfelli samning þarf sannarlegur meirihluti að vera á bakvið það. Í þessu tilfelli sögðu 49,68% nei en já sögðu 48,58% og auðu skiluðu 1,74%.

Niðurstaðan varð því þannig að þrátt fyrir að færri segðu já en nei var samningurinn samþykktur. Þetta mat á atkvæðagreiðslu er stutt af eldri dómum félagsdóms í sambærilegum málum. Þetta varð því niðurstaðan þó ýmsum hafi þótt hún súr. Frekari umfjöllun um þetta tiltekna mál er á vef Landssambands lögreglumanna – Sjá hér >> 

Leave a Reply

Your email address will not be published.